146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:37]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Nei, hæstv. menntamálaráðherra. Þetta er ekki boðlegt eða fullnægjandi svar. Það er rétt sem þú segir, hæstv. ráðherra, við menntum marga kennara en um 50% þeirra sjá ekki ástæðu til að vera í skólunum. Ein af ástæðunum eru of lág laun. Það er ekki hægt að sá ráðherra sem ber ábyrgð á málaflokknum, sem stýrir skútu menntamála inn í mjög óvissa en skemmtilega framtíð ef vel tekst til, varpi bara ábyrgðinni á samráðherra sinn. Hann verður að snúa upp á handlegginn á samráðherrum á ríkisstjórnarfundum og ná þeim tekjum.

En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, ef þú vildir hlusta svo þú getir svarað spurningunni … (KÞJ: Ég heyri í þér.) Hér eru sett fram markmið. Talað er um aðgerðir — og nú verð ég að tala hærra því að hæstv. ráðherra fór úr salnum. Það er hins vegar talað um að þær séu ekki fjármagnaðar. Hæstv. ráðherra hefur verið sveitarstjóri í þremur bæjarfélögum og hann hefur verið ráðherra. Hann veit vel að það er ekki endalaust hægt að bæta verkefnum á stofnanir, skóla eða aðra starfsemi og láta vinna meiri og meiri vinnu án þess að því fylgi fjármagn. Hér er kostnaðarliðurinn tómur alls staðar og sagt að hann eigi að rúmast innan málaflokksins. Ég vil fá að vita: Er það ábyrgt að fjármagna þetta ekki aukalega til að það skerði þá ekki málaflokkinn í heild sinni? Því að þá er hann verr settur en þó birtist í þessu.

Og svo að lokum: Hæstv. ráðherra sagði hér að verið væri að vinna þetta í mikilli tímapressu. Fjárlögin voru líka unnin við mjög sérstakar aðstæður. Finnst ráðherranum það boðlegt? Eigum við ekki að gefa okkur meiri tíma í þetta og hafa þá möguleika til að gera plaggið þannig að stór meiri hluti þingmanna geti sæst á það?