146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:46]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við upphaf þessa fundar var okkur tilkynnt að umræða um hvert málefnasvið ráðherra tæki röska klukkustund. Nú eru tveir ráðherra búnir að tala á einum og hálfum tíma og þrjú korter eru ekki rösk klukkustund.

Við sömdum um ræðutíma. Hann var tilkynntur í upphafi fundar. Við sömdum frá okkur málfrelsi í þeim tilgangi að ná að eiga gott samtal við ráðherrana. Ég þakka hæstv. ráðherra Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir þær góðu umræður sem hér voru en undir ráðherrann heyra níu af þeim 34 málefnasviðum sem í fjármálaáætluninni eru. Mér hefði ekki þótt ofrausn að við tækjum þennan fulla röska klukkutíma í að ræða þau málefnasvið. Ef stjórnarliðar vilja ekki nýta sinn tíma veit ég um fólk sem getur nýtt hann. Ef við viljum hins vegar skera þennan tíma við nögl og taka eins og þrjú korter í hvern ráðherra (Forseti hringir.) þurfum við bara að setjast niður og semja upp á nýtt. Samningur dagsins í dag heldur ekki einu sinni fram að kaffitíma.