146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við búum við þingræði og hér eru þingmenn einmitt að spyrja ráðherra spjörunum úr varðandi fjármálaáætlunina. Það eru nefnilega ýmsar forsendur á bak við tölurnar sem við höfum ekki góðan aðgang að. Í umræðu áðan kom fram að náttúruminjasafn hefði ekki verið fjármagnað vegna þess að beiðni um slíka fjármögnun hefði ekki skilað sér. Eftir fyrirspurn frá mér er ljóst að sú beiðni hefur ekki skilað sér til fjárlaganefndar. Beiðni um framkvæmd samkvæmt ályktun þingsins skilaði sér ekki inn til fjárlaganefndar í síðustu fjárlögum, hvað þá núna í fjármálaáætlun.

Skilaboðin virðast einfaldlega ekki komast frá ráðuneytinu til fjármálaráðuneytisins og til okkar inn í fjárlaganefnd. Um svona upplýsingar er nauðsynlegt fyrir alla að spyrja, ekki bara stjórnarandstöðuna heldur líka stjórnarþingmenn sem (Forseti hringir.) hafa sama takmarkaða aðgang og við í stjórnarandstöðunni.