146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hluti af þeirri umræðu sem hér hefur verið skipulögð er að sjálfsögðu til að gefa þingmönnum færi á að tjá sig um þau áform sem hér liggja fyrir. Ég skal gera mitt besta til að svara eftir föngum þeim spurningum sem til mín er beint í þessari umræðu. Ég hlýt að mótmæla því að framlög til þróunarsamvinnunnar séu skorin niður, þvert á móti. Eins og kom fram í ræðu minni áðan er gert ráð fyrir að sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hækki prósentan. (RBB: Nei.) Það er einfaldlega þannig, hv. þingmaður. Þú kemur bara í síðara andsvar og gerir athugasemdir við það. Hér liggur fyrir að vegna aukinna framlaga til aðstoðar við flóttamenn og hælisleitendur er áætlað að framlögin hafi numið árið 2016 0,25%. Það er gert ráð fyrir að þau nemi 0,25% á þessu ári. Stefnt er að því í áætluninni að þau hækki í 0,26% á árinu 2018 og haldi því út tímabilið. Þar sem að auki er gert ráð fyrir hærri þjóðartekjum mun þetta hækkaða hlutfall sömuleiðis skila auknum framlögum inn í þróunarsamvinnuna.