146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:28]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er fjölmargt sem mig myndi langa til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra út í en ég verð víst að sætta mig við staðgengil hans, hæstv. menntamálaráðherra. Ég ætla að byrja á að spyrja um aðferðafræði. Í hverjum einasta kafla fjármálaáætlunarinnar er tafla sem lýsir markmiðum. Í markmiðum um utanríkismál er hverri einustu stöðu á hverju einasta markmiði lýst svo fyrir árið 2016, með leyfi forseta:

„Þetta er erfitt að mæla og verður byggt á sjálfsmati.“

Ég velti fyrir mér hvernig við sem Alþingi, sem eftirlitsstofnun með ríkisrekstrinum, eigum að geta metið árangurinn af aðgerðum sem er erfitt að mæla, sér í lagi þegar maður skoðar viðmiðin fyrir 2018 og 2022 sem eru ekki nein. Það kemur ekki neitt einasta viðmið fyrir í neinu markmiði í heila utanríkismálakaflanum.

Mig langar líka að spyrja út í fámenni á sendiráðsskrifstofunum. Nú eru til að mynda 14 manns, minnir mig, í sendiráði Íslands í Brussel, lítill en mjög frábær hópur sem sinnir öllum verkefnum sem snúa að Evrópusambandinu. Sambærilegt sendiráð Noregs í Brussel er með um 70 starfsmenn. Við þurfum hreinlega að tryggja hagsmuni Íslands gagnvart Evrópusambandinu með fullmönnuðu og burðugu sendiráði. Í fjármálaáætluninni segir að tryggja verði að sendiskrifstofur hafi lágmarksmannafla til að halda úti starfsemi sinni. Mig langar til að forvitnast um fjölgun á fólki sem búast megi við á árunum 2018–2022. Við erum í augnablikinu ekki með sérfræðinga nokkurra fagráðuneyta í þessu tiltekna sendiráði. Svo mætti líka spyrja út í hver staðan er með önnur sendiráð.