146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Fyrst er til að taka, þegar rætt er um hvernig við eigum að vinna úr þeim markmiðum og meta þau markmið sem verið er að setja í fjármálaáætluninni, að stjórnkerfið og þingið eru að vinna sig inn í nýjan veruleika. Þetta eru mikil tímamót sem við erum að vinna að, sem er fjármálaáætlun til lengri tíma en hún er þannig úr garði gerð að við erum að markmiðssetja hana líka. Það er ekki einsdæmi, svo að ég segi það hér, hvernig frágangur markmiðanna er undir utanríkisþjónustunni, þetta er hægt að finna víðar í öðrum málaflokkum.

Það er vissulega bagalegt að þetta verk sé hreinlega ekki komið lengra en með sama hætti gefur þetta líka þinginu kost á að koma með miklu ákveðnari hætti að því að fylgja eftir og kalla eftir því við stjórnsýsluna að hún sinni og vinni að þeim verkum sem þarna eru fram sett. Ég lít þar af leiðandi á það sem sameiginlegt verkefni þingsins og stjórnkerfisins að þróa þetta vinnulag betur en það er alveg augljóst, og ég skal játa það hreinskilnislega, að mælanleg markmið og mælikvarðar eru ekki settir fram á mörgum sviðum. Það er bara þannig.

Þegar hv. þingmaður nefnir samanburðinn við Noreg og viðveru þeirra í Brussel er ólíku saman að jafna. Norðmenn eru með mikinn her útsendara úr sínu stjórnkerfi staðsettan í Brussel og verja til þess ómældum fjármunum sem við Íslendingar höfum hingað til ekki verið tilbúnir til að setja í þetta. Í því liggur munurinn. Um það snúast kannski umræðurnar hér, hversu miklum fjármunum við viljum verja til ákveðinna þátta, þar með talið þess þáttar sem hv. þingmaður nefnir hér.