146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:32]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa tilraun til svars og þann heiðarleika að viðurkenna að viðmiðin séu engin. Það er vandamál að þetta skjal sem okkur er gert að samþykkja er uppfullt af viðmiðum sem ekki er hægt að mæla og markmiðum sem ekki er hægt að meta árangurinn af. Þetta eru ekki góð vinnubrögð. Það er ekki einu sinni hægt að byrja að lýsa því hversu slæm vinnubrögð þetta eru. Við þurfum, til þess að þetta sé eitthvað sem við getum tekið mark á og jafnvel hugsað okkur að samþykkja, að laga þetta. Að algeru lágmarki. Ég vona að þetta verði tekið fyrir í nefndinni.

Varðandi það að ólíku sé saman að jafna, sendiráðum Íslands og Noregs í Brussel, segir hér, með leyfi forseta, á bls. 124:

„Þó eru ýmis verkefni í alþjóðasamskiptum sem verður að sinna, óháð stærð þjóða.“

Síðar segir:

„Brugðist hefur verið við þessu að einhverju leyti undanfarin misseri með fjölgun starfsmanna.“

Nú veit ég að ástandið er ekki alveg eins og best verður á kosið. Það eru færri starfsmenn í því tiltekna sendiráði sem ég nefndi hér áðan, í Brussel, en voru fyrir hrun. Samt eru verkefni okkar í Brussel, sem tengjast Evrópusambandinu, engu minni en verkefni Noregs. Það er spurning hvort við ætlum að halda áfram að vera stöðugt að eltast við 2. gr. ferli við upptöku EES-mála eða fara að sinna hlutverki okkar gagnvart 8. gr. og fara að fylgja málunum eftir þegar þau eru í þróun í Brussel, í framkvæmdastjórninni, hjá Evrópuþinginu o.s.frv. Ég sé 2 milljarða til viðbótar sem fara til utanríkismála. Það væri áhugavert að vita hvort í þessu felst einhver fjölgun á starfsfólki til þessa málaflokks eða hvort áframhald verði á því að fólk reyni að vinna ótrúlega góða vinnu en nái því varla vegna manneklu.