146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er í mínum huga algerlega ástæðulaust að draga undan í þeim efnum ef eitthvað skortir á það með hvaða hætti verið er að vinna hlutina Þess vegna er það einfaldlega eðlilegasti hlutur í heimi fyrir mér að horfast í augu við að þetta er misjafnlega unnið. Það liggur fyrir að vinnan við mælikvarða og markmiðasetningu er lengst komin í þróunarsamvinnunni. Varðandi utanríkisviðskipti og varnarmál hefur sömuleiðis verið ágætlega unnið. En það eru aðrir hlutir sem standa út af. Það er víðar en í utanríkisþjónustunni sem þannig háttar til.

Meginatriðið er að við erum að þróa og ganga inn í nýtt verklag. Þingið afgreiðir ekki þetta plagg fyrr en fjárlaganefnd og viðkomandi fagnefndir hafa fjallað um það. Sú umræða sem hér fer fram er í mínum huga mjög góð, þ.e. í stað þess að við tökum umræðu beint um plaggið, eins og tekin var í gær, var samkomulag í þinginu um að efna til þeirrar umræðu sem hér fer fram. Þetta er gert að ákvörðun forsætisnefndar og fjárlaganefndar, að draga þessa umræðu fram, og mér finnst það nauðsynleg áður en málið gengur til nefndar. Það er líka í ágætu samræmi við þá breytingu sem gerð var á þingsköpum um meðferð fjárlagafrumvarpsins, sem var gott.

Varðandi það sem hv. þingmaður segir um samanburðinn við Noreg, um það hvernig við sinnum Evrópusamstarfinu, þá er rétt að við erum undir í þeim samanburði. Það hefur verið, leyfi ég mér að fullyrða, meðvituð vinna. Ég held að engum komi á óvart að við erum ekki með mikla mönnun þar. Mínar upplýsingar — um þá 2 milljarða sem hv. þingmaður spurði út í, þ.e. hvort ætlunin væri að styrkja sérstaklega starf utanríkisþjónustunnar í Brussel — herma að svo sé ekki. Það er einfaldlega gert ráð fyrir að það verði í svipuðu fari og verið hefur.