146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:37]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í kaflanum um utanríkismál kemur fram að þörfin fyrir mannúðaraðstoð hefur aldrei verið meiri og málefni flóttafólks hafa verið ofarlega á baugi síðustu misseri. Alþjóðastofnanir hafa þannig kallað málefni flóttafólks einhverja alvarlegustu áskorun sem heimurinn stendur frammi fyrir. Síðan kemur skýrt fram í kynningu og upphafi þessarar fjármálaáætlunar að ríkisstjórnin hafi í hyggju að taka á móti fleiri kvótaflóttamönnum. Það er eitt af því sem hefur verið lögð mjög mikil áhersla á.

Ég er hins vegar búin að fara í gegnum þetta plagg sem snýr að utanríkismálum og get ekki almennilega séð hvar fjármunirnir eru sem eiga að fara í að taka á móti fleiri kvótaflóttamönnum eða tryggja að við getum haldið áfram að styðja myndarlega við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og aðrar þær undirstofnanir sem hafa sinnt þessum verkefnum. Það er nefnt hér að það eigi að fara 696 milljónir kr. til mannúðaraðstoðar árið 2017. Það hefur líka komið fram í svörum ráðherrans að vegna þess að við höfum verið að setja aukna fjármuni til aðstoðar við flóttamenn og hælisleitendur hafi framlög til þróunaraðstoðar hækkað frá því sem áður var upp í 0,25% af vergum þjóðartekjum. En þeir fjármunir voru hins vegar að stórum hluta undir öðrum ráðuneytum. Eins og ég þekki til hefur ekki verið auðvelt að halda í þá peninga. Ég hef ekki séð að þeir fjármunir séu til staðar undir velferðarráðuneytinu eða innanríkisráðuneytinu. Þess vegna spyr ég hvort fjármunirnir séu undir utanríkisráðuneytinu, til þess að tryggja að við getum gert það sem við eigum að gera.

Ég er með tölur. Það kostar um 5 milljónir að taka á móti einum kvótaflóttamanni. Ef við ætlum að taka á móti 50 erum við að (Forseti hringir.) tala um 250 milljónir, ekki rétt? Ef við ætlum að fara upp í 150 erum við að tala um 750 milljónir. Þá er orðið óskaplega lítið eftir til að fara til allra þeirra mikilvægu alþjóðastofnana sem við þurfum svo sannarlega að styðja við.