146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ég sé ekki þeirrar skoðunar að það sé til góðs að forsvarsmenn þjóðarinnar séu í sem mestum samskiptum við starfsbræður sína vítt um veröld. Ég er í grunninn algerlega sammála þeirri skoðun hans að því meiri samskipti, þeim mun betra, nema í því tilfelli þegar utanríkisráðherra þarf að ræða fjármálaáætlun 2018–2022. Þá gæti verið skemmtilegra og æskilegra að ferðalögin væru aðeins styttri og skemmri.

Ég tek innleggi hv. þingmanns fagnandi. Ég vil nefna það úr ræðustól að ég misvirði alls ekki við hv. þingmann að það skuli minnt á staðgengilshlutverkið. Það er fyrst og fremst fullkomlega eðlilegt að svona sé. Það getur einfaldlega háttað þannig til að á þetta þurfi að reyna. En meginatriðið er í mínum huga að þingið hafi aðkomu og tækifæri til að ræða viðkomandi málefnasvið, utanríkismálin, og það fylgi síðan málinu inn til viðkomandi nefnda sem fjalla um þetta.

Fyrst ég nefni það vil ég enda mál mitt á því að svara hv. þingmanni og vitna til orða hv. þm. Haraldar Benediktssonar formanns fjárlaganefndar sem ítrekaði við umræðuna í gær að það er þingið sem hefur fjárveitingavaldið og þingið sem fer með þau mál sem fyrir það er lagt.