146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:22]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég geri í stuttu máli grein fyrir fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 hvað varðar þau málefnasvið sem heyra undir mig sem ráðherra, þ.e. málefnasvið 7 sem er rannsóknir, nýsköpun og þekkingargreinar sem ég deili ábyrgð á með menntamálaráðherra; málefnasvið 14, um ferðaþjónustu; málefnasvið 15, um orkumál; málefnasvið 16, um markaðseftirlit og neytendamál og þar deili ég ábyrgð með fjármálaráðherra.

Í stuttu máli er gert ráð fyrir að efla öll þessi málefnasvið á tímabilinu með auknum framlögum samanborið við fjárlög yfirstandandi árs og er gert ráð fyrir mestri aukningu til ferðamála. Ég mun í máli mínu einkum dvelja við þá metnaðarfullu stefnu, framtíðarsýn og mælanlegu markmið sem við höfum sett okkur um hvert og eitt málefnasvið. Í áætluninni eru auk þess tilgreindar aðgerðir sem styðja við þessi markmið.

Hvað varðar þau málefnasvið sem undir mig heyra er farin sú leið að miða markmiðin við þrjár stoðir sjálfbærni eins mikið og kostur er þannig að þau snúi að umhverfislegum, efnahagslegum og samfélagslegum þáttum. Mikilvægt er að hafa þessa nálgun í huga til að skilja úr hvaða samhengi markmiðin eru sprottin. Sem kunnugt er deili ég með hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra ábyrgð á málefnasviði 7, en undir mitt ráðuneyti fellur málaflokkurinn nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar. Hér eru þau nýmæli að málefnasviðið vísar nú til þekkingargreina þvert á atvinnugreinar og þar með framþróunar, atvinnulífs á grunni tækni og nýjunga. Þetta er ákveðin viðhorfsbreyting sem ég bind vonir við að muni hafa áhrif.

Framtíðarsýn okkar í þessum málaflokki er að Ísland verði leiðandi á sviði rannsókna og þekkingar og á þeim grunni reiðubúið að takast á við samfélagslegar áskoranir. Meginmarkmið málefnasviðsins er alþjóðlega samkeppnishæft umhverfi rannsókna og nýsköpunar þar sem áhersla er lögð á gæði, gagnsæi, alþjóðasamstarf og árangur.

Hér höfum við sett okkur þrjú markmið, í fyrsta lagi að auka framleiðni á grunni nýsköpunar, samkeppni og minni reglubyrði, í öðru lagi að auka hagnýtingu lausna sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og neikvæðum umhverfisáhrifum og í þriðja lagi að ný störf skapist í þekkingargreinum um land allt. Þar höfum við sett okkur markmið um 3% fjölgun á ári sem ég tel að sé metnaðarfullt markmið.

Framtíðarsýn okkar varðandi ferðaþjónustu er að Ísland sé eftirsóttur áfangastaður vegna sérstöðu, hreinleika umhverfis, fagmennsku og gæða. Í Vegvísi um ferðaþjónustu felst góð stefnumörkun sem við munum fylgja eftir. Eins og áður segir er gert ráð fyrir að málaflokkurinn fái talsvert aukin framlög miðað við yfirstandandi ár og ljóst er að verkefnin eru ærin, mörg og fjölbreytt, m.a. hvað varðar stjórnsýslu, innviðauppbyggingu, gæðamál, kynningarmál, upplýsingagjöf og öryggismál. Sem fyrr lúta markmiðin að þremur stoðum sjálfbærrar þróunar, í fyrsta lagi að auka framleiðni í greininni, í öðru lagi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og í þriðja lagi jákvætt viðhorf til ferðaþjónustu, bæði meðal erlendra ferðamanna og okkar Íslendinga sjálfra.

Ég kem örugglega nánar inn á þessi mál á eftir.

Á málefnasviði 15 sem fjallar um orkumál setjum við niður þá framtíðarsýn að Ísland sé leiðandi í þróun og nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa á grunni sérstöðu og hreinleika umhverfis og orkuauðlinda, þekkingar og fagmennsku.

Í því ljósi er meginmarkmið málefnasviðsins aukin samkeppnishæfni orkumarkaðar á grunni efnahagslegs, umhverfislegs og samfélagslegs jafnvægis. Mælanleg markmið sem styðja við framtíðarsýnina eru í fyrsta lagi að tryggja jafnvægi framboðs og eftirspurnar á almennum markaði, í öðru lagi að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkubúskap Íslands, í þriðja lagi að jafna orkukostnað vegna dreifingar raforku á landsvísu og í fjórða lagi að lágmarkskröfur um afhendingaröryggi raforku gildi um allt land. Tilgreindar eru átta aðgerðir til að styðja þessi markmið.

Framtíðarsýn stjórnvalda á málefnasviði 16, sem ég deili með fjármálaráðherra eins og ég kom inn á, um markaðseftirlit og neytendamál, snýst um skilvirka efnahagsstarfsemi og velferð á grunni stöðugleika, virkrar samkeppni, gegnsæis og heilbrigðra viðskiptahátta. Þessi framtíðarsýn er í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2016. Markmiðin eru þrenns konar, í fyrsta lagi aukið gegnsæi, virk samkeppni og heilbrigðir viðskiptahættir í fjármála- og viðskiptalífi, samkvæmt fimm skilgreindum mælikvörðum, í öðru lagi aukin umhverfisvitund og úrlausnir á sviði umhverfismála á grunni markaðseftirlits og samkeppni og í þriðja lagi aukið traust almennings til atvinnulífs og markaðseftirlits. Fimm aðgerðir eru tilgreindar til að ná þessum markmiðum.

Ég kem kannski nánar inn á það líka á eftir, en áherslur mínar miða ekki einungis að auknum fjárframlögum heldur líka nýrri hugsun, nýjum áherslum, kröftugum aðgerðum til að efla atvinnulíf og samkeppnishæfni á grunni nýsköpunar þvert á atvinnugreinar og aukinni sátt um ýmis mál, hvort sem það er uppbygging raforkukerfis, ferðaþjónusta eða hvaðeina annað.