146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:39]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Hluta af því sem hv. þingmaður fór yfir verð ég eiginlega að vísa á umhverfisráðherra, varðandi loftslagsmálin og fjármuni í ýmis verkefni þar og hvort fjármálaáætlunin dugi til að uppfylla þau markmið.

Varðandi nýsköpunina er það rétt að ég vísaði í fjármálaáætlun og sagði að það væri ekki fjárlög. Með því á ég við að við erum vissulega með stóru breiðu línurnar í fjármálaáætluninni en þá er auðvitað eftir öll forgangsröðun. Í nýsköpunarhlutanum hef ég sagt að í mínum huga snýst það ekki allt um aukið fjármagn heldur hvernig við vinnum, hvað við erum að gera. Við þurfum líka að spyrja af hverju við séum að gera hlutina sem við erum að gera, fyrir hverja við gerum þá og hvort við séum hugsanlega að gera eitthvað í dag sem við þurfum ekki endilega að gera áfram. Með því á ég við að nú fer þessi rammi í gegnum þingið og í framhaldinu fáum við einhverja útkomu út úr því sem við í ráðuneytinu munum síðan þurfa að vinna eftir í samvinnu og samráði við undirstofnanir til að ná fram þeim markmiðum sem aftur birtast í fjármálaáætlun. Slík útfærsla og tölur liggja ekki fyrir núna heldur ramminn og við reynum síðan að ákveða hvað við ætlum að gera til að ná þeim markmiðum sem birtast í áætluninni.

Varðandi Samkeppniseftirlitið man ég ekki alveg spurningu hv. þingmanns og kem inn á það í seinna svari.