146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:41]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég var að sjálfsögðu að vísa til orða hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar áðan, ekki hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar, afsakið það. En þetta er ekki alveg ásættanlegt. Nú er orkuskiptaáætlunin á forsvari hæstv. ráðherra. Ég vil fá svör um þá orkuskiptaáætlun í ljósi þess að mér sýnist ekki vera neinir peningar til að laga þetta.

Að sjálfsögðu vil ég líka fá svar um Samkeppniseftirlitið, hvort það muni fá það fjármagn sem þarf til að tryggja að stoppað verði í markaðsbresti sem hafa plagað okkur allt of lengi. Það má búast við því að vísitala neysluverðs geti jafnvel farið upp í 30% vegna markaðsbresta. Þetta er gífurlega mikilvægt mál.

Nú á líka að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna, jafnvel í þrepaaðgerð sem ég er reyndar sammála. En það þarf að fara varlega til að skaða ekki þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað. Því spyr ég hvort ráðuneyti ferðamála hafi gert einhverja greiningu á því hvaða áhrif hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna mun hafa á fyrirtæki í greininni, sérstaklega úti á landsbyggðinni.

Það er líka gert ráð fyrir niðurskurði til málefna ferðaþjónustunnar á tímabilinu um rúmlega 150 millj. kr. Mig langar að skilja í hverju sá niðurskurður felst. Hvernig samrýmist það því að verið er að setja aukaálögur á ferðaþjónustuna annars vegar og hins vegar því að á sama tíma liggur fyrir alveg gífurleg uppsöfnuð þörf á innviðafjárfestingum tengdum ferðaþjónustunni? Það er ansi margt þar.

Svo að ég fari yfir þetta: Það er ferðaþjónustan með hliðsjón af virðisaukaskatti og innviðauppbyggingu; það er Samkeppniseftirlitið; það er orkuskiptaáætlun, sem ég hef ekki fengið svar við.