146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:47]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég get tekið undir allt sem hann fór yfir. Það eru mörg stór verkefni fram undan sem ráðast þarf í á þessu sviði. Uppbygging flutningskerfis raforku er stórt mál sem skiptir landsbyggðina sérstaklega miklu máli. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður kom inn á varðandi samstillt átak. Ef við leyfum okkur að reyna að nálgast þessi verkefni með svipuðu vinnulagi og hugarfari og gert var í ljósleiðaravinnunni getum við unnið þau hraðar og mögulega fyrir minni fjármuni, a.m.k. kallar þetta á nýja hugsun.

Menn höfðu efasemdir um að hægt væri að ráðast í ljósleiðaraverkefnið, en svo kom í ljós að það var hægt. Ég bind miklar vonir við það.

Ég vil aðeins nefna þessi stóru mál viljum við ráðast í vinnu við þriggja fasa rafmagn. Ef áætlanir ganga eftir mun þetta að líta dagsins ljós árið 2034. Það er auðvitað allt of langur tími. Ef eitthvað er hægt að gera í því viljum við reyna það. Við erum líka með orkuöryggi á heildsölumarkaði raforku. Það er stórt mál. Enginn ber ábyrgð á því að tryggja orku fyrir þennan smærri markað, þ.e. heimili og smærri fyrirtæki. Stefnan er að ráðast í þá vinnu.

Ég hef kallað eftir í umræðunni að það verði að horfa á málið í stóru samhengi. Við vorum áðan að fjalla um orkuskipti í samgöngum. Það verður að vera hægt að gera slíkt úti um allt land. Í dag er staðan þannig að það eru veik svæði í þessu sem gera að verkum að við gætum ekki einu sinni — þegar við teiknum upp framtíðarsýn sem menn geta sameinast um (Forseti hringir.) fylgir raforkukerfið ekki eftir þeirri mynd. Það kallar á mikla uppbyggingu.