146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:52]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég bind vonir við og held að nú sé lag, ef okkur lánast að horfa á þessi mál í samhengi, að þegar við fjöllum um þau geti náðst meiri sátt, t.d. þegar kemur að uppbyggingu raforkukerfisins. Það þarf að leggja línur. Okkur hefur gengið mjög brösuglega með slíkar framkvæmdir síðustu misseri. Það eru forréttindi að vera ráðherra orkumála í landi eins og Íslandi þar sem hlutfall endurnýjanlegrar orku er eins og það er hér. Í því felast mikil tækifæri.

Það væri gott ef okkur tækist þetta með uppbyggilegri hætti um þá stöðu sem við erum í og þau tækifæri sem henni fylgja, sérstaklega nú þegar svo mikið er rætt um loftslagsmál, frekar en að eyða svo mikilli orku í að rífast um hvaða leið eigi að fara. Þetta er stórt mál sem margir þurfa að láta sig varða. En ég held að næstu ár muni nýtast mjög vel í þessa uppbyggingu ef okkur tekst að líta á raforkukerfið sem þá lífæð sem það er, rétt eins og samgöngukerfi, fjarskiptakerfi og annað sem verður að vera í lagi til þess að halda byggð í öllu landinu og til að fólk hafi þau tækifæri til að skapa verðmæti og búa við þau lífsgæði sem við gerum kröfu um.