146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að koma öllu hér að á tvisvar sinnum tveimur mínútum. En ég reyni að afmarka mig við eitthvað.

Hæstv. ráðherra segir að það sé ekki alltaf spurning um peninga. Ég er nú glaður að heyra það í ljósi þess hversu litla peninga hæstv. ráðherra hefur til þess alls sem þarf að gera. Hún talar um mikil markmið, þrífösun og flýtingu þeirra verkefna. Ég vil spyrja ráðherrann hvort hún hafi hugmyndir um hvað þurfi til. Á að leggja 200 milljónir á ári til Rarik til að flýta afskriftum svo hægt sé að fara í framkvæmdir hraðar eða verða bein framlög frá ríkinu til Rarik svo hægt sé að fara í þetta?

Hér eru nefnd átta markmið í orkukaflanum á bls. 229. Þar eru um 150–160 milljónir sem reyndar raðast niður á fjögur til fimm ár til alls konar verkefna. En síðan eru nokkur stór verkefni sem stendur einfaldlega um að verði forgangsraðað innan ramma og ekki sett króna í. Eitt af þeim er t.d. að nýta og greina tækifæri til að draga úr raforkunotkun kyntra hitaveitna. Mjög áhugavert verkefni sem þarf peninga til og sambærilegt verkefni og var gert í Vestmannaeyjum.

Ég hafði þennan inngang svona leiðinlegan, frú forseti, til hæstv. ráðherra vegna þess að á árinu 2018 hækka framlögin um 62 milljónir til ársins 2019 en þar sem ríkisstjórnin hefur líka sett sér 2% aðhaldskröfu á hverju ári, ef ég hef skilið málið rétt, er að aðhaldskrafan í þessum lið á því ári 74 milljónir, þ.e. ráðherrann hefur 12 milljónum (Forseti hringir.) minna til að fara í ný verkefni, þessi risastóru verkefni sem hún var að tala um áðan. Þess vegna er ég sammála henni (Forseti hringir.) að það væri gott ef hægt væri að gera hlutina án þess að þeir kostuðu peninga en það væri áhugavert að heyra leið ráðherrans í því.