146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:03]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera að umtalsefni einn þeirra málaflokka sem undir hæstv. ráðherra heyra, sem er ferðaþjónustan. Ég verð til að byrja með að segja að mér þykir reyndar jákvætt að flest þeirra markmiða sem hér eru sett fram eru fín að því leyti að þau eru mælanleg, tímasett og nokkuð skýr og það er augljóslega eftirsóknarvert að flest þeirra náist.

Mig langar því að gera eitt markmiðanna sérstaklega að umtalsefni. Ég dáist dálítið að hugrekki ráðherrans fyrir að leggja það fram. Það er markmið 3 í kaflanum um ferðamál þar sem segir að viðhalda eigi jákvæðu viðhorfi til ferðaþjónustu. Ég skal játa að ég hef sjálfur frekar jákvætt viðhorf til ferðaþjónustu og þeirra áhrifa sem ferðaþjónustan hefur haft á íslenskt samfélag. Ég kann vel að meta þá hópa sem labba um Austurvöll og sýna fólki sögu íslensks lýðræðis. Ég kann vel að meta að mæta í sundlaugar þar sem fólk talar á öllum tungumálum. Ég hef meira að segja skilning á að þegar fólk ferðist um landið og geri stundum hluti sem lífverur þurfa að gera.

En það er engu að síður þannig að það er kappsmál og ekki auðsótt að ekki bara viðhalda jákvæðri ímynd ferðaþjónustunnar heldur beinlínis að auka hana, því að markmiðið þarna er að hún verði 65%, eða að tveir þriðju landsmanna verði jákvæðir í garð ferðaþjónustunnar eftir tvö til fimm ár. Það finnst mér frekar metnaðarfullt. Mig langar að heyra hvernig hæstv. ráðherra ætlar að ná því fram og hvort hún telji að sá fjárhagslegi rammi sem henni er settur dugi til þess.