146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Eftir smáígrundað mál um orð mín um fundarstjórn forseta áðan, þar sem ég sagði forsætisráðherra hafa haft áhrif á atkvæði þingmanna, viðurkenni ég fúslega að ég hef líklega haft rangt fyrir mér. Ég kenni fordómum mínum gagnvart forsætisráðherra þar um. Ég treysti ekki forsætisráðherra.

Orðaskipti hans við viðkomandi þingmenn voru á þann hátt að það leit út fyrir að það væri meira á bak við þau en einföld leiðrétting á þeim mistökum sem nýir þingmenn geta gert í atkvæðagreiðslu. Því komst ég að þeirri niðurstöðu að meira lægi á bak við.

Ég efast ekki um að viðkomandi þingmenn hafa að lokum skilað því atkvæði sem þeir ætluðu sér, en vegna þess að forsætisráðherra kom þar að ályktaði ég öðruvísi. Ég biðst afsökunar á því, en þannig virkar vantraust, það leiðir til rangra ályktana.