146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég ætla mér að eiga orðastað við hæstv. dómsmálaráðherra um þau viðmið og markmið sem er að finna í þeim köflum þessarar fjármálaáætlunar er varða málefnasvið hennar. Það reynist mér hins vegar dálítið erfitt að finna út úr því nákvæmlega hvað ég ætla að ræða við hana því að viðmiðin eru ýmist ekki til staðar, þau eru furðuleg og illskiljanleg eða bara alls engin markmið yfir höfuð að finna sem þessi viðmið eiga að nýtast. Sem dæmi má nefna að hefja á mælingar á þeim tíma sem lögreglan hefur til að bregðast við á vettvangi. Það vekur furðu hjá mér að það sé ekki gert nú þegar, það sé engin mæling á viðbragðstíma lögreglu í útkalli. Er rétt skilið hjá mér, hæstv. dómsmálaráðherra, eða staðgengill hæstv. dómsmálaráðherra, að hér séu engar mælingar á útkallshraða lögreglu og hafi ekki verið? Er það það sem má lesa út úr þessu? Þetta er það fyrsta sem mér finnst forvitnilegt. Annað viðmið sem mér þykir undarlegt og í meira lagi skrýtið hvernig á að fylgja eftir er að sjálfstæð nefnd sem sett var á fót til að hafa eftirlit með starfi lögreglu á að starfa í samræmi við lög. Hún hóf störf 1. janúar 2017. Ég spyr mig: Er það viðmiðið fyrir þetta ár að hún svari lágmarkshlutverki sínu, að starfa í samræmi við þau lög sem hún á að vinna eftir, getum við ekki fundið okkur betra markmið en hið minnsta lágmark?

Ég verð að taka undir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni. Mig langar að spyrja: Stendur til að ráða 200 nýja lögreglumenn á tímabilinu, eins og lögreglan hefur sjálf óskað eftir? Það er engar upplýsingar að finna í áætluninni um hvort fjármagni verði varið í það, enda er þetta afskaplega rýr kafli þegar kemur að einhvers konar sundurliðun á kostnaðarliðum. Ég finn ekki eina einustu sundurliðun. Þetta er allt samantekið, engin sundurliðun. Ég spyr: Hvernig stendur á því metnaðarleysi hjá hæstv. dómsmálaráðherra að við sjáum ekki eina tölu um einn sundurliðaðan lið hérna?