146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:42]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna þessu tækifæri til að fá að ræða við hæstv. ráðherra um mál sem er mér kært, sem er löggæslan. Öflug og skilvirk löggæsla er einn af hornsteinum þess lýðræðissamfélags sem við búum í og viljum viðhalda.

Það væri hægt að ræða mikilvægi öflugrar löggæslu út frá mörgum mismunandi þáttum, eins og kynferðisbrotamálum, heimilisofbeldi, netöryggismálum og kjaramálum lögreglu og svo mætti áfram telja. En ég ætla að leggja áherslu á löggæsluna á landsbyggðinni í ljósi breytts vinnuumhverfis vegna fjölgunar verkefna og aukins fjölbreytilegra þeirra verkefna.

Þar ber helst að nefna þá jákvæðu þróun að ferðamönnum fjölgar mikið hér á landi og þeir fara í auknum mæli út á landsbyggðina, úti um allt land, ekki síst á staði sem eru utan dreifbýlisins, alla leið inn á hálendið þar sem aukningin hefur verið hvað mest. Löggæslan hefur oft verið miðuð við íbúafjölda á hverjum stað. Strax við komu ferðamanna eykst álag á lögreglu, til að mynda við landamæraeftirlit.

Töluverðu fjármagni hefur verið bætt við löggæsluna undanfarin ár. Fyrst árið 2014 með sérstöku 500 millj. kr. aukaframlagi og aftur á síðasta ári með 400 millj. kr. framlagi. En í bæði þessi skipti voru ákveðin verkefni sett í forgang eftir greiningu og úttekt á stöðu löggæslunnar og verkefnin talin forgangsmál. Þau voru fjölgun lögreglumanna á landsbyggðinni, svo að þeir þurfi ekki að starfa einir og til að stytta viðbragðstímann, aukin landamæravarsla og bætt þjálfun og búnaður lögreglumanna til að auka viðbragðsgetuna úti um allt land.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort haldið verði áfram á sömu braut og þessar áherslur gerðu ráð fyrir og hvort þær verði gerðar varanlegar svo hægt verði að skipuleggja löggæsluna um allt land samkvæmt þeim áætlunum.