146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:54]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að heyra það að þetta sé að fullu fjármagnað vegna þess að á bls. 116 stendur u.þ.b. fyrir miðri síðu að svigrúm fjármálaáætlunar sé ekki nægjanlegt til að fjármagna slík áform, þ.e. hina nýju stofnun. Ég vil því spyrja aðeins betur út í það. Þetta er að finna fyrir ofan fyrirsögnina á bls. 116.

Svo eru fleiri mál sem mig langar til að koma inn á, tíminn er nú reyndar ansi stuttur, en það varðar fangelsin. Ég ætla að sleppa löggæslunni og Landhelgisgæslunni. Ég tek undir margt sem hv. kollegi minn, Vilhjálmur Árnason, sagði hér áðan.

Varðandi fangelsin þá kemur fram á bls. 180 að sífellt fleiri bíði afplánunar í mjög langan tíma. Ég veit að ríkisstjórnin er með ýmis áform varðandi það að gera betur í fangelsismálum. En þegar maður les í gegnum skjölin er það ekki mjög sannfærandi, þ.e. hljóð og mynd fara ekki nægilega vel saman. Við höfum margoft rætt fangelsismál á Alþingi og við erum öll sammála um að við þurfum að leggja meiri áherslu á betrun. Það þýðir að við þurfum að hafa fleiri úrræði inni í fangelsum til að byggja fólk upp svo það sé tilbúið til þess að koma aftur út í samfélagið. Við viljum fækka endurkomum í fangelsin. En þeir sem hafa t.d. heimsótt Litla-Hraun vita að húsakostur þar er mjög lélegur, þar þarf að taka til hendinni. Skilvirknin í fangelsum hér á landi er bara alls ekki nógu góð og ekki heldur þjónusta við fanga.

Mig langar til að spyrja: Telur ráðherra að þær fjárhæðir sem við sjáum hér dugi til þess að gera skurk í þessum málaflokki? Ég vind mér aftur í dómstólana og nefni húsnæði Héraðsdóms hér í miðbænum sem er orðið mjög lélegt. Ég get ekki séð (Forseti hringir.) að menn taki slíkar framkvæmdir inn í jöfnuna og hef áhyggjur af því, sérstaklega af ástandi fangelsa hér á landi.