146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:06]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég kýs að eiga aftur orðastað við hæstv. ráðherra, í þetta skipti hef ég áhuga á að ræða um fangavörslukerfið eða refsiréttarkerfið. Ég hef veitt athygli þremur ákveðnum málaflokkum innan þess ramma sem refsiréttarkerfinu er settur, það er að draga úr endurkomutíðni, að auka sálfræðiþjónustu og heilbrigðisþjónustu við fanga og að stytta biðlista í fangelsi. Hins vegar skortir mig eftir lestur þessarar áætlunar upplýsingar um hvernig þessum hlutum verður í raun hrint í framkvæmd.

Í fyrsta lagi er talað um að draga úr endurkomutíðni í fangelsi, en ég sé samt sem áður á bls. 187 þar sem talað er um að það sé 24% endurkomutíðni í íslensk fangelsi, að sú tala byggi á norrænum samanburðarrannsóknum. Því spyr ég hæstv. staðgengil ráðherra hvort það sé raunverulega svo að við byggjum tölur um endurkomutíðni á Íslandi á norrænum tölum því eins og við vitum vonandi og hæstv. ráðherra þá er töluvert öðruvísi refsivörslukerfi á Norðurlöndunum en hér á Íslandi. Mér þætti vænt um að hafa töluvert nákvæmari heimild en hér er að finna þegar kemur að jafn mikilvægum málaflokki og þessum. Ég fæ ekki séð hvernig ég get staðfest hvort það takist að draga úr endurkomutíðni ef ég get ekki treyst tölunum sem hér standa.

Það er ítrekað talað um að auka sálfræðiþjónustu fanga, en það er hvergi talað um hvers konar viðmið skuli nota til þess að mæla hvort sálfræðiþjónusta við fanga hafi aukist. Við vitum að akkúrat núna er ekki nema eitt stöðugildi sálfræðings sem vinnur hjá Fangelsismálastofnun. Af hverju er ekkert viðmið hér um hvernig eigi að fjölga þeim og hversu mikið? Eiga þeir að vera tveir? Eiga þeir að vera fimm eða tíu? Hvar stöndum við þar?

Loks, herra forseti, er talað um sem markmið á bls. 187 að sytta biðlista í fangelsi. Það eru 550 á biðlista 2016, en svo er ekki að finna nein viðmið eða markmið um hvaða aðgerð eigi að notast við (Forseti hringir.) til þess að stytta biðlistana. Ég spyr hæstv. ráðherra: Stendur ekki til að stytta biðlistana? (Forseti hringir.)Af hverju er engin viðmið um þetta að finna í áætluninni?