146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:09]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Varðandi samanburðinn við Norðurlöndin þá skilst mér að skýringin sé sú að aðferðafræðin sé sú sama, en tölurnar koma ekki þaðan, tölurnar liggi fyrir hjá fangelsismálayfirvöldum hér á Íslandi, en þetta sé nefnt svona vegna þess að aðferðafræðin er sú sama og samanburðurinn er við Norðurlöndin.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að hér er farið yfir það að stefnt sé að því að auka sálfræði- og meðferðarúrræði í fangelsum landsins til þess að stuðla að betri og farsælli aðlögum dómþola á samfélaginu eftir afplánun. Með tilkomu fangelsis á Hólmsheiði hefur afplánunarrýmum fjölgað um 30 frá árinu 2015 og fleiri rými í fangelsiskerfinu og rýmkunin sem gerð var á samfélagsþjónustu og rafrænu eftirliti í nýjum lögum um fullnustu refsinga kemur til með að stuðla að styttri bið eftir afplánun og að refsingar fyrnist síður. Með innleiðingu fjölskylduleyfa og auknu fjármagni í félags- og sálfræðiráðgjöf innan fangelsanna, sem er líka partur af betruninni, munu dómþolar vonandi aðlagast betur að samfélaginu eftir að fangelsisvist lýkur og þannig mun draga úr ítrekun brota og endurkomutíðni í fangelsi.