146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það verður að velja og hafna grimmt þegar tvær mínútur eru til stefnu til að ræða þetta mikilvæga svið.

Ég ætla aðallega að beina sjónum að tvennu. Hið fyrra er það sem hæstv. ráðherra kom reyndar örlítið inn á með fæðingarorlofið. Ég verð að segja alveg eins og er að ég kann bara ekki við þessa orðanotkun, að það séu að gerast stór tíðindi í fæðingarorlofsmálum og það eigi að endurreisa það kerfi og efla það. Hvað er hér á dagskrá? Það stendur til í þremur áföngum að hækka þakið úr 500.000 í 600.000 kr. og það er ekki einu sinni tímasett hvenær innan áætlunarinnar þetta gerist. Kannski er það það. Í öllu falli á þetta þá að taka þrjú ár. Það eru engin ósköp, frú forseti, um 100.000 kr. í þremur skömmtum, úr 500.000 í 600.000 kr. Er það endilega brýnast í fæðingarorlofsmálum núna að færa þakið ofar frekar en að tryggja öllum að lágmarki 300.000 kr. greiðslu í fæðingarorlofi, eins og lægstu laun eru að fara, og segja ekki eitt einasta orð, en með þögninni auðvitað að boða að ekki standi til að ná neinum árangri í lengingu fæðingarorlofs á þessu áætlunartímabili, ekki neinum? Það er algerlega óásættanlegt. Hvenær á að lengja fæðingarorlofið á Íslandi og koma okkur í áttina að því sem nágrannalöndin eru hvað það varðar, ef ekki núna í þessu mikla góðæri? Ég sætti mig bara ekki við það að menn ætli að teikna upp enn ný fimm ár í viðbót þar sem þetta gerist ekki. Fæðingarorlofið er alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum eitt ár eða meira og í flestum öðrum löndum sem við berum okkur saman við.

Númer tvö nefni ég húsnæðismálin. Mér finnst það með ólíkindum miðað við umræðuna um húsnæðismál á Íslandi í dag og það sem hæstv. ráðherra hefur meira að segja sjálfur kallað neyðarástand, að það eigi að draga umtalsvert úr fjárveitingum inn í þann málaflokk hjá ríkinu á áætlunartímanum. Það á að gera með því að (Forseti hringir.) stofnframlögin þurrkast þá út eða stórlækka eftir þrjú ár og vaxtabætur (Forseti hringir.) lækka líka. Hvernig rímar það við ástandið í húsnæðismálum að ríkið dragi (Forseti hringir.) svo milljörðum skiptir úr fjárveitingum sínum (Forseti hringir.) inn í málaflokkinn?