146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:41]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Hér veltir hv. þingmaður upp mjög mörgum áhugaverðum spurningum. Þegar kemur að lægstu bótum, kjörum öryrkja, lífeyrisþega, verður auðvitað að hafa í huga að þó að við getum vissulega alltaf gert betur og eigum alltaf að vera að stefna að því að styðja betur við þessa hópa má líka hafa í huga þróun á launum þegar horft er til vinnumarkaðarins. Þær fjárhæðir eru tengdar við þróun lágmarkslauna og hefur kaupmáttur lágmarkslauna aldrei verið hærri en nú, þar með kaupmáttur lágmarksbóta. Ég get því ekki sagt að illa sé að verki staðið.

Varðandi umræðuna um áherslu í þeim mikilvæga málaflokki þegar kemur að forvörnum tek ég heils hugar undir það sem hv. þingmaður segir. Það er ekki vandamál sem við tökumst á eingöngu með því að — hún notaði orðið „hagræða“, ég segi við eigum alltaf að vera að leita leiða til þess að bæta lífsgæði fólks, auka virkni. Það er einmitt kjarninn í stefnu okkar í þessum málum, að fjárfesta mikið meira í atvinnutengdum úrræðum, fjárfesta í starfsendurhæfingunni. Á heilbrigðissviðinu er verið að fjárfesta í geðheilbrigðismálum einmitt til þess að draga úr nýgengi örorku til þess að hjálpa fólki aftur til virkni sem komið er á örorku- eða endurhæfingarlífeyri. Það er gríðarlega mikilvægt að hafa það í huga.

Stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málum rímar mjög vel áherslur mínar. Verið er að forgangsraða í þágu velferðar. Við erum að auka verulega útgjöld til velferðar til viðbótar við þá aukningu sem þegar er komin og um náðist þverpólitísk samstaða í þinginu síðasta haust. Það verður líka að hafa það í huga þegar við horfum á áhersluna á ábyrga hagstjórn að það er ekki síður mikið hagsmunamál heimila og ekki síst þeirra tekjulægstu. Það voru þeir tekjulægstu sem urðu verst úti í síðustu niðursveiflu. Og það eru einmitt þeir (Forseti hringir.) tekjulægstu sem verða verst úti þegar við missum tökin á hagstjórninni.