146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:49]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Þarna kemur hv. þingmaður að mjög snöggum bletti á velferðarkerfi okkar sem er þessi háa örorkutíðni ungs fólks og við sjáum núna að hún fer sérstaklega vaxandi meðal ungra karlmanna. Það er reyndar alveg sláandi hversu hratt örorkutíðnin stígur í þeim aldurshópi og allt upp undir fertugt. Mjög oft er þetta fólk sem ekki nýtur neinna réttinda frá lífeyrissjóðum, með mjög lítinn sem engan feril á vinnumarkaði. Þarna hljótum við að þurfa að horfa til þess hvað getum við gert til þess að styðja betur við þennan hóp, styðja hann til virkni. Þarna er auðvitað augljóslega mikið vandamál hvað snertir geðheilbrigðisþjónustuna. Þess vegna fagna ég því mjög að heilbrigðisráðherra leggur stóraukna áherslu á geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum og í skólakerfinu. Það er afar mikilvægt að við tökum miklu betur undir með þessum hópi til þess að sporna við þessari þróun.

Hvað varðar tímasetningu okkar aðgerða þá er alveg ljóst eins og ég nefndi í svari mínu fyrr að okkur er þröngur stakkur sniðinn, sér í lagi á árinu 2018 vegna þess kostnaðar sem felst í sérstökum hækkunum á ellilífeyri og örorkulífeyri. Hins vegar munum við nýta tímann vel núna á næstu mánuðum til þess að undirbúa breytinguna yfir í aukna áherslu á starfsgetumatið og starfsendurhæfingu og kynna þær og hrinda auðvitað í framkvæmd eins fljótt og okkur er auðið. Það er mjög brýnt verkefni, án efa eitt brýnasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í ráðuneytinu í dag.