146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:51]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég þakka ráðherranum svörin. Þau eru ágæt. Ég skil að það er ekki hægt að svara kannski öllu upp á dag og punkt. Ég er hins vegar fremur óþolinmóður maður enda kem ég norðan úr Skagafirði og þar viljum við að hlutirnir gangi aðeins fljótar fyrir sig. Ég velti því líka fyrir mér, þótt það sé kannski ekki beint hluti af fjármálaáætluninni, hvort ekki sé kominn tími til þess þegar við gerum næst fjármálaáætlun að við horfum til þess að samþætta betur og skilvirkar en við gerum nú heilbrigðiskerfið annars vegar og almannatryggingakerfið hins vegar. Ég held nefnilega að stór hluti, og ég hygg að ráðherrann átti sig á því eða ég vona að ég hafi ekki misskilið hann, eða ein ástæða þess að við sjáum verulega fjölgun öryrkja, sérstaklega meðal ungs fólks, er að heilbrigðiskerfið hefur brugðist. Þá hljótum við í þessum sal að taka eftir því og bregðast við því með einhverjum hætti, m.a. þegar við vinnum að fjármálaáætlun og þegar kemur að verki að næstu fjárlögum 2018. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að öll kerfin okkar sem við viljum hafa sterk fyrir okkar veikustu samborgara vinni saman. Þau vinna ekki saman núna með þeim hætti sem við viljum að þau geri.

Það er áskorun sem hæstv. félagsmálaráðherra, hæstv. heilbrigðisráðherra, ríkisstjórnin og allur þingheimur stendur frammi fyrir að (Forseti hringir.) ná að samþætta heilbrigðiskerfi og almannatryggingakerfið (Forseti hringir.) og ná að byggja upp almannatryggingakerfi sem hættir að refsa okkar veikasta fólki þegar það gerir (Forseti hringir.) tilraun til þess að bæta sinn hag.