146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:56]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er um að gera að tala hratt þegar spyrja þarf um svona mörg atriði.

Í fyrsta lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra um það hvort ekki sé öruggt að samanburðarreglan sem snýr að tekjum eldri borgara, og tryggir að þeir geti haldið allt að 1,2–1,3 milljónum á ári í atvinnutekjur, haldi sér þó að verið sé að gera breytingar á frítekjumarkinu. Hvernig verður samspilið þar á milli? Er ekki öruggt að það sé til fjármagn samkvæmt ríkisfjármálaáætlun til þess að tryggja hálfan ellilífeyri til allra sem það vilja án nokkurra tekjuskerðinga?

Í öðru lagi spyr ég hvort ráðherrann hafi skoðað þann möguleika að afnema allar tekjuskerðingar á leigutekjum lífeyrisþega því að þá væri hægt að sameina að einhverju leyti hagsmuni bæði aldraðra og þeirra sem yngri eru sem gætu verið að leigja af hinum eldri.

Í þriðja lagi vil ég spyrja ráðherrann varðandi stofnframlögin, það er komin fram skýring um lækkunina á þeim, en hver er ástæðan fyrir því að sú upphæð virðist samt sem áður eiga að halda sér í krónum talið? Væntanlega verður þessi eini og hálfi milljarður minna virði eftir þrjú eða fjögur ár miðað við virðið í dag. Telur hann að þessi eini og hálfi milljarður geti mætt þörfum félagslega kerfisins og þar með talið námsmönnum líka?

Svo í fjórða lagi: Hvar eru peningarnir í kvótaflóttamennina samkvæmt ríkisfjármálaáætluninni?