146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:05]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Á forræði hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra er einn málaflokkur sem lítið hefur verið vikið að hér en þó gerðist það í seinustu ræðum, en það eru innflytjendamálin. Það er nefnilega oft þannig að fókusinn á innflytjendamál hér í þinginu er oft í tengslum við dómsmálaráðherra og hans tillögur og orð en raunar er það þannig að mínu mati að næstu brýnu skref í þessu máli eiga frekar að heyra undir þennan málaflokk.

Í raun er dómsmálaráðherra svolítið eins og dyravörðurinn en allt sem gerist þegar komið er inn í landið hvað varðar innflytjendur heyrir miklu frekar undir félags- og jafnréttismálaráðherra. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar er kveðið á um að auðvelda eigi komu fólks frá löndum utan EES til Íslands í leit að námi og starfi. Ráðherra getur treyst því að finna minn þvala og heita andardrátt á hnakka sínum þegar kemur að þeim efnum.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra að nokkru sem kom fram í spurningu áðan sem var um fjölda kvótaflóttamanna, þ.e. hvernig það er með þau framlög sem gert er ráð fyrir. Hvað er reiknað með að það dugi fyrir mörgum? Ég velti því fyrir mér í tengslum við það hvort sú tala sé með einhverju móti tengd fjölda hælisleitenda sem koma hingað af sjálfsdáðum. Loks langar mig að spyrja ráðherra um þau frumvörp sem hann hefur lagt fram um jafna meðferð á vinnumarkaði, sem lúta að jafnri stöðu óháð þjóðernisuppruna og tengjast þessum málum, hvort gert sé ráð fyrir að innleiðing þeirra hafi í för með sér einhvern kostnað.