146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:09]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra kærlega fyrir svarið. Það er ánægjulegt að heyra að til standi að fjölga kvótaflóttamönnum upp í 100, ég er sammála því. Alla vega hvað fjölda núlla varðar. En mig langar að velta einu fyrir mér og fá sjónarmið ráðherrans. Ég spyr hvort hann sé ekki sammála mér um að það sé okkar mikla gæfa hversu vel hefur tekist til að mörgu leyti, hve atvinnuþátttaka innflytjenda sem hingað koma hefur verið há. Ég sé að þarna eru sett fram markmið um að hlutfall atvinnulausra innflytjenda verði 3,5% en það er nú 4,5%. Það verður að viðurkennast að í alþjóðlegu samhengi er það engu að síður ansi gott. Það er ánægjulegt að í umræðu um fjármálaáætlun þurfum við ekki að taka mikinn tíma í að ræða hve mikil byrði koma innflytjenda verður á íslenskt samfélag. Ég vona að ég og hæstv. félagsmálaráðherra séum sammála um að því sé þveröfugt farið. Það er einmitt þannig að við þurfum á fleira fólki að halda til að geta haldið áfram að vaxa og dafna.