146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:24]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar spurningar. Það á alltaf að vera forgangsatriði hjá okkur að berjast gegn fátækt. Við erum vel stætt samfélag. Það skiptir gríðarlega miklu máli og er mjög sárt til þess að hugsa að hér búi fjöldi fólks við skort.

En það sem þó blessunarlega hefur unnið með okkur á undanförnum árum er mikill styrkur í hagkerfinu sem hjálpar okkur mjög í þessari baráttu. Við sjáum þegar við horfum á þá vísa sem Velferðarvaktin heldur utan um að okkur miðar í rétta átt þó svo að við þurfum svo sannarlega að gera betur í þessum efnum.

Við sjáum sterkustu tengslin við fátækt og bága stöðu fólks einmitt þegar kemur að heilsubresti eða örorku og stöðu fólks á húsnæðismarkaði. Það skiptir gríðarmiklu máli að styðja betur við það fólk. Við höfum áður í þessari umræðu rætt hugmyndir okkar þegar kemur að starfsendurhæfingu, aukinni fjárfestingu í úrræðum til að styðja fólk til virkni að nýju, sem er gríðarlega mikilvægt í þessu samhengi. En þarna skiptir líka húsnæðismarkaðurinn mjög miklu máli. Þar horfi ég til og styð heils hugar uppbygginguna í almenna íbúðakerfinu. Ég held að það sé afar mikilvægt og brýnt úrræði. Úrræðið kom inn í gegnum kjarasamninga 2015. Ég kannast ágætlega við það frá fyrri störfum mínum.

Í þessari áætlun erum við í raun að stuðla að því að úrræðið verði frambúðarúrræði en ekki eingöngu átaksverkefni. Ég held að það sé mjög brýnt. Uppbygging félagslegs íbúðakerfis er ekki átaksverkefni heldur á það að vera viðvarandi verkefni.

Hvað varðar hugmyndir Samfylkingarinnar um að koma á skattfrelsi á leigutekjum einnar íbúðar og að bæta í almenna kerfið: (Forseti hringir.) Við erum að skoða með heildstæðum hætti hvernig við getum eflt enn frekar og stuðlað að auknu framboði á húsnæðismarkaði og er sjálfsagt að horfa til þeirra hugmynda.