146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:26]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra sagði hér áðan: Þeir tekjulægstu fóru verst út úr síðasta hruni og þeir verst stöddu munu fara verst út úr því ef við missum stjórn á hagkerfinu, hagstjórninni. Það vekur áhyggjur hjá mér. Þessi útgjaldaregla nýtist auðvitað þegar efnahagslífið er að bólgna út, en ef við horfðum fram á samdrátt held ég að það myndi að sama skapi bitna verst á nákvæmlega þessum hópi.

Mig langar að spyrja hann aðeins út í hvort honum hefði ekki þótt eðlilegra að skerðingarmörkin í vaxtabóta- og barnabótakerfinu hækkuðu. Það er allt að verða dýrara. Ekki síst húsnæðiskostnaður.

Og að lokum það mál sem Björt framtíð talaði sem mest um fyrir kosningar, lögbinding NPA, sem er afskaplega gott mál og nauðsynlegt. Það verður lögfest núna fljótlega. En sá er galli á gjöf Njarðar að ríkið greiðir 25% af kostnaðinum en sveitarfélögin telja það þurfa að vera 30%. Þarna skakkar 270 milljónum. Það þekki ég sem sveitarstjórnarmaður að það er ekki hægt að bjóða sveitarfélögum endalaust upp á að taka við þjónustu sem ekki er fullfjármögnuð. Það mun einfaldlega verða til þess að úrræðið nýtist ekki eins og það þyrfti að gera. Ég held að það væri mannsbragur að því að við settumst niður með sveitarfélögunum og fjármögnuðum þetta úrræði þannig að það verði virkilega til bóta fyrir það fólk sem svo sannarlega þarf á því að halda.