146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:45]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Frú forseti. Þann 23. febrúar 1990 tók Júlíus Sólnes til starfa sem umhverfisráðherra, fyrstur hér á landi til að gegna slíku embætti. Stofnun sérstaks ráðuneytis fyrir þennan málaflokk var reyndar frekar umdeild en síðan þá hefur sem betur fer mikið vatn runnið til sjávar og óhætt að segja að augu fólks hafi opnast fyrir mikilvægi umhverfisverndar.

Mig langar að lesa hér örlítinn bút úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem snýr að umhverfis- og auðlindamálum, með leyfi forseta:

„Gerð verður aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið. Áætlunin feli meðal annars í sér græna hvata, skógrækt, landgræðslu og orkuskipti í samgöngum. Unnið verður að eflingu græna hagkerfisins.“

Þessi orð hljóma svo sem ágætlega en gefa lítil fyrirheit um hvernig staðið verði að framkvæmdinni. Ég velti fyrir mér hvort sú fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir sé nægilega metnaðarfull til að koma umhverfismálum í gott lag til framtíðar eða hvort við klúðrum þeim málum með ómældum skaða fyrir afkomendur okkar.

Við skulum líta á nokkrar tölur, eins og reyndar hefur verið gert hér áður. Í fjárlögum 2017 er gert ráð fyrir 15.597 millj. kr. Þessi upphæð mun hækka um tæpan milljarð til ársins 2018. Það er gott. Svo fer þetta nú eitthvað á flökt upp og niður, en þegar upp er staðið verður árið 2022 upphæðin einungis 299 milljónum hærri en tala ársins 2018. (Forseti hringir.) Því spyr ég hæstv. ráðherra, því að ég veit að hún er mér sammála að umhverfismál séu eitt af mikilvægustu málum samtímans, hvort mikilvægið endurspeglist í þeim tölum sem birtast okkur í fjármálaáætlun.