146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:57]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Takk fyrir þessa spurningu. Ég vil taka undir með hv. þingmanni um rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands. Á ábyrgðarsviði umhverfisráðuneytisins eru umfangsmiklar rannsóknir á íslenskri náttúru sem eru mjög mikilvægur þáttur í starfsemi alls ráðuneytisins. Það er t.d. Veðurstofa Íslands, Náttúrufræðistofnun, Íslenskar orkurannsóknir, og aðrar minni stofnanir, ekki síður mikilvægar sem gegna stundum mjög afmörkuðu hlutverki, eins og RaMý á Mývatni. Það er mjög mikilvæg stofnun.

Varðandi landverðina. Þeir eru svo sannarlega hluti af vöktunarkerfinu og náttúruverndinni. Landverðir eru bara svo dásamlegt og ódýrt tæki til þess að vakta íslenska náttúru, gera við, ef við getum sagt sem svo, og til þess að þjónusta ferðamenn að einhverju leyti og leiðsegja þeim. Þeir hafa ákveðnu öryggishlutverki líka að gegna.

Það stendur reyndar til að auka í landvörslu núna fyrir sumarið. Ríkisstjórnin er einhuga um það. Við ætlum að gera það myndarlega nú fyrir sumarið.