146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:00]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Þetta er áhugaverður punktur. Mér finnst mjög mikilvægt að skilja á milli virkjunarhugmynda, sem eru um 10 megavött eða yfir, og svo smávirkjana, sem oft eru kallaðar bændavirkjanir. Þær sem eru nálægt og um og yfir 10 megavöttum geta auðvitað haft mikið rask í för með sér og þurfa að fara í mat vegna þess, svokallað umhverfismat. Smávirkjanir eru allt annar handleggur, þar sem rennsli er ekki skert. Til dæmis ef pípa er leidd í bæjarlæk og rennslið er nýtt til orkusköpunar eða það eru gamlar jarðhitaborholur eða leiðir til að setja túrbínu ofan á það sem annars bara puðrast út í loftið, finnst mér að það eigi að skoða það mjög alvarlega. Það er rask að leggja línur þvers og kruss og það er líka svo kostnaðarsamt. Hér er oft rætt um að hringtengja og tengja inn í alla firði og út á öll ystu nes. Það kostar fé. Það er mjög skiljanlegt. Auðvitað vilja allir hafa gott aðgengi að rafmagni í þessu landi sem við höfum gnótt af rafmagni. En ef einhverjar leiðir eins og smávirkjanir eru færar á stöðum þar sem erfitt eða mjög kostnaðarsamt er að leggja línur, og þá er verið að nota rafmagnið í héraði, eigum við að skoða þær mjög alvarlega.