146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Herra forseti. Nú erum við í þessari umræðu að ræða fjármálaáætlun, tillögu til þingsályktunar, mikið plagg. Þannig er háttað með þetta málefnasvið, umhverfismálin, að öfugt við mörg önnur ráðuneyti eru ráðuneytið og allar stofnanir þess þarna undir á sama staðnum. Ráðherrann hefur komið hér upp og farið aðeins yfir stefnumörkun sína og áherslur. Textinn í þessu plaggi er prýðilegur, alveg ágætur, fín markmið. En af því að þetta er nú fjármálaáætlun vonast ég til að ég hafi verið sá eini sem fékk þetta eintak þar sem ekki ein einasta tala er inni, þ.e. um kostnað, til þess að við getum rætt fjármálaáætlun og í hvað þessi milljarður á að fara.

Hér er hver taflan á fætur annarri. Markmið skýr. Alls konar hlutir sem sagt er að fara eigi í á þessu tímabili og ábyrgðaraðilar jafnvel tilgreindir. En í töflunni þar sem kostnaður er sagður eiga að koma fram stendur ekki neitt, ekki króna.

Hvernig eigum við að ræða fjármálaáætlun um umhverfismál, þar sem auka á um milljarð 2017–2018, þótt aðeins dragi úr því á árunum þar á eftir, ef við höfum engar tölur? Ætti þetta þá ekki að heita pólitísk umræða? Og ætti hún þá ekki að snúast um eitthvað allt annað?

Mig langar að biðja ráðherrann, í þessari fyrri spurningu og fyrra svari hæstv. ráðherra, að segja okkur hvaða tölur standa inni í þessum áætlunum.