146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:09]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Auðvitað eru mál eins og fráveitur sveitarfélaga eitthvað sem þessi ríkisstjórn fékk í arf frá fyrri ríkisstjórn hv. þingmanns þar sem sveitarfélög eins og Mývatn og Skútustaðahreppur þurfa að fást við það, því að það er lögum samkvæmt þeirra hlutverk að sjá um fráveitumál. En þar eru uppi sérstakar aðstæður, sérstakt verndargildi og Mývatn og Laxá friðlýst svæði. Þar er verið að finna út úr því hvernig hægt er að koma til móts við það litla sveitarfélag. Það sem skiptir mjög miklu máli þar er að mengunarbótareglan gildir þar eins og annars staðar. Þeir sem menga og reyna að fara á svig við klausur í reglugerðum, eða hvað það var kallað, þeir borga. Fráveitumál sveitarfélaga snúast ekki um fráveitumál hótela, svo að það sé sagt. Ríkið mun ekki greiða fyrir það. Það á að skilja þarna á milli.

Fjárlögin eru til þess að ræða, því að hér var býsnast yfir því að Alþingi væri að missa spón úr aski sínum, missa af því að fjalla um hvaða peningar færu hvert. Hv. þingmaður veit auðvitað að það gerist í fjárlagaumræðu. Ég hef boðið að við gerum það fyrr, t.d. í sérstakri umræðu. Ef hv. þingmaður vill ræða það sérstaklega hvernig ég í mínu ráðuneyti hugsa það, að ég skipti fjármunum á milli og beri það á borð í fjárlögum, þá getum við gert það hvenær sem er.