146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:19]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun til langs tíma eða til lengri tíma en við erum vön að gera; þetta er nýtt fyrirkomulag og ég hef áður lýst því yfir að ég fagna því. Þingmenn sem komu í pontu áðan höfðu nokkrir áhyggjur af því að það vantaði krónur og aura en þetta er nýtt fyrirkomulag um stefnumörkun sem ég hef mjög mikinn áhuga á og mér finnst ánægjulegt að við stefnum að því. Fyrirkomulagið skapar skýrt samhengi milli faglegra markmiða og fjármuna til einstakra málefnasviða en hengir ekki einhverjar krónur á þetta og hitt út frá handahófskenndum vilja til að gera vel. Mér finnst þetta mjög áhugavert.

Ég vil hins vegar koma að loftslagsmálum og aðgerðaáætlun í þeim. Megintilgangur þess markmiðs er að stíga ákveðin skref í átt að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við stefnu og markmið Parísarsamkomulagsins. Markmiðið tengist með beinum hætti markmiðum málefnasviðsins og snýr að verndun náttúru og sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda. Markmiðið er dæmi um viðfangsefni sem kallar á víðtækt samráð og samstarf fleiri ráðuneyta. Það er það sem ég hef áhuga á að vita hjá hv. ráðherra. Það er alveg ljóst að aðgerðir í loftslagsmálum eru mikilvægar og koma víða við, snerta sveitarfélög, félagasamtök o.fl. Stjórnvöld leggja mikið fé til þessara mála og við vitum að þau geta ekki fengist við þetta mikilvæga mál ein. Hvernig sér ráðherra fyrir sér samspil stjórnvalda og atvinnulífs við að auka skilvirkni í þeim aðgerðum sem þarf?