146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:23]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar Brynjólfsson spurði hæstv. ráðherra hvernig bíl hann æki og mig langar því, á meðan ég man, að segja hversu stolt ég er af því að ég hef verið á metanbíl í tæp tíu ár. Ég var mjög spennt fyrir þeirri nýsköpun og mögulegri innviðauppbyggingu hvað varðar metannotkun á ökutækjum. Ég bíð spennt eftir orkuskiptaáætluninni sem er mér mjög hugleikin, bíð eftir hressilegri uppbyggingu varðandi innviði fyrir fjölorkustöðvar og fleira eins og rætt var um hér áðan. Ráðherra kom inn á mikilvægi þess að vinna í þessum málum í samvinnu við atvinnulífið. Björt framtíð hefur talað fyrir því að styrkja nýsköpun í landinu sem getur leikið mikilvægt hlutverk í að fást við hin ýmsu umhverfismál. Hvernig sér ráðherrann fyrir sér að auka við stuðning við loftslagsvæna tækni og þróun í landinu með þessa nýsköpun í huga?