146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:28]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Það er gott að fá að ræða hér um fiskeldið og við höfum svo sem líka fengið tækifæri til að gera það í þingsal áður. Ég hef sagt og segi enn: Ég er með þeirri atvinnuuppbyggingu sem er byggð upp í samræmi og með umhverfissjónarmið að leiðarljósi og í sátt við íbúa og umhverfi sitt og vistkerfin sem liggja undir.

Ég hef af fiskeldinu talsverðar áhyggjur, eiginlega bara mjög miklar. Hún er að fara fram úr löggjöfinni. Við erum sífellt að bregðast við ef svo má segja. Svo ég svari bara mjög skýrt þá hefði mér þótt betra að það væri til heildstætt mat á áhrifaþáttum sem liggja til grundvallar. Nú er verið að vinna stefnumótun í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu með aðkomu umhverfisráðuneytisins m.a. þar sem lagt er upp með þetta. Auðvitað hef ég talsverðar áhyggjur af að þetta sé að gerast of seint en þá er auðvitað bara að spýta í lófana.

Eins finnst mér varðandi það frumvarp sem ég hef mælt fyrir, nei, ég er ekki búin að mæla fyrir því, það kemur inn í þingið í næstu viku, um skipulag hafs og stranda, að það þurfi að liggja til grundvallar skipulag á þessum svæðum áður en það er farið af stað.

Varðandi heildstæða úttekt eða rammaáætlun finnst mér það ekki vond hugmynd. Hins vegar liggja til grundvallar þolmörk fjarðanna, þ.e. burðarþol fjarða sem Hafró setur fram.