146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:34]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er stefnt að því að verja um 4.113 milljörðum kr. til málefnasviðanna 34 á næstu fimm árum. Af málefnasviðunum 34 eru þrjú þeirra að hluta eða í heild á ábyrgð samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Það er málefnasvið 8, sveitarfélög og byggðamál, málefnasvið 11, samgöngu- og fjarskiptamál, sem eru að langmestu leyti hjá ráðuneytinu, og málefnasvið 6, hagskýrslugerð, grunnskrá og upplýsingamál, sem eru auk þess á ábyrgð dómsmálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra.

Á næstu árum er stefnt að því að verja allt að 314 milljörðum kr. til þessara þriggja málefnasviða eða tæplega 8% af ramma fjármálaáætlunar. Aukning frá fjárlögum 2017 og ramma fjármálaáætlunar 2018 nemur tæplega 3%. Er vert að minnast þess að framlög til samgöngumála hækkuðu töluvert í meðförum þingsins fyrir árið 2017 eða um ríflega 4,5 milljarða. Síðan hefur ríkisstjórnin komist að þeirri niðurstöðu að bæta við til málaflokksins um 1,2 milljörðum kr. á þessu ári.

Framlög málefnasviðanna þriggja munu hækka töluvert á tímabili fjármálaáætlunar sem nemur hækkun á milli fjárlaga 2017 og ramma fjármálaáætlunar 2022, tæplega 14%. Til samgöngu- og fjarskiptamála verður varið um 186 milljörðum á tímabili fjármálaáætlunar eða að meðaltali ríflega 37 milljörðum kr. á ári.

Þrátt fyrir að ríflega 33 milljörðum kr. sé varið til samgöngumála á þessu ári er víða kallað eftir úrbótum, enda spanna samgöngur vítt svið. Fjárveitingum er ætlað að standa straum af þjónustu á vegum, m.a. snjómokstri og hálkuvörnum, viðhaldi vega, nýframkvæmdum, styrkjum til almenningssamgangna á landi, í lofti og á legi, rekstri og viðhaldi innanlandsflugvalla, sjóvörnum og hafnabótum svo það helsta sé nefnt.

Á meðal brýnna framkvæmda í samgöngum má nefna Dýrafjarðargöng og nýja Vestmannaeyjaferju. Þrátt fyrir tæplega 10 milljarða kr. fjárveitingu til framkvæmda á vegum á fjárlögum 2017 er þörf á auknu fé til framkvæmda. Skoða þarf nýjar leiðir til fjármögnunar, svo sem samstarfsfjármögnun. Í náinni framtíð þarf að aðlaga bæði regluverk og umferðarmannvirki að þeim lausnum sem hagkvæmastar eru.

Ástæða er til að skoða breytingar á tekjuöflun á samgöngum, m.a. þar sem rafbílum og eyðslugrönnum bílum fjölgar ört. Árið 2018 verður Hvalfjarðargöngum skilað til ríkisins. Samtímis þarf að huga að tvöföldun þeirra vegna vaxandi umferðar og öryggiskrafna.

Aðrar stórar framkvæmdir sem eiga að borga sig upp sjálfar en ríkið er þó í beinni eða óbeinni ábyrgð fyrir eru Vaðlaheiðargöng og uppbygging á Keflavíkurflugvelli. Þá vinna einkaaðilar að undirbúningi hafnarframkvæmda í Finnafirði, þar á meðal að fjármögnun verkefnisins.

Á meðal annarra stefnumála vil ég helst nefna öryggismál. Áhersla er lögð á öryggi í öllum samgöngugreinum. Markvisst er unnið að því að fækka banaslysum og alvarlegum slysum í umferðinni. Stefnt er að því að fækka skráðum flugslysum og alvarlegum flugatvikum sem og tilkynntum tilvikum á sjó.

Á næstu árum verður auk þess unnið að því að auka hlut almenningssamgangna, lækka hlutfall losunar gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum og auka hlutfall nýrra ökutækja sem nota endurnýjanlegt eldsneyti. Átaksverkefnið Ísland ljóstengt er meginviðfangsefni stjórnvalda á sviði fjarskipta til ársins 2020. Stórir áfangar hafa náðst í fjarskiptauppbyggingu í verkefninu Ísland ljóstengt en á síðasta ári styrkti fjarskiptasjóður uppbyggingu 14 sveitarfélaga á 1.000 ljósleiðaratengingum. Á þessu ári mun sjóðurinn styrkja uppbyggingu 24 sveitarfélaga um 1.400 ljósleiðaratengingar.

Í fjármálaáætlun 2018–2022 stendur til að verja um 500 millj. kr. á ári til verkefnisins. Þannig verður áfram unnið að hagkvæmari uppbyggingu ljósleiðarakerfa á svæðum með skilgreinda markaðsbresti á landsvísu. Verkefnið varðar hagsmuni íbúa, ferðamanna, atvinnulífs, veitu- og fjarskiptafyrirtækja á viðkomandi svæðum og er sameiginlegt átak ríkisins og sveitarfélaga, íbúa, veitu- og fjarskiptafyrirtækja og verktaka þar sem samstarf og hagkvæmni verður höfð að leiðarljósi. Stefnt er að miklum árangri á því sviði. Sem dæmi má nefna að ef áform ganga eftir munu 99,9% lögheimila á Íslandi hafa aðgang að 100 MB nettengingu árið 2020.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar koma fram pólitískar áherslur næstu ára í sveitarstjórnar- og byggðamálum. Áfram verður unnið að því í gegnum byggðaáætlun að jafna búsetuskilyrði landsmanna, m.a. hvað varðar raforku og fjarskiptamál. Unnið verður að því að styrkja lýðræðislega aðkomu íbúa að ákvörðunum um byggðamál í gegnum sóknaráætlun landshluta. Þá verður reglulega gerð úttekt á aðgengi landsmanna að þjónustu í samvinnu við sveitarfélögin.

Á næstunni verður lögð fram þingsályktunartillaga um nýja byggðaáætlun fyrir 2018–2024 og þar verður að finna aðgerðir til að ná fram lögfestum markmiðum áætlunarinnar. Fjárveitingar til málaflokks byggðamála voru auknar um tæplega 25% á árinu 2017 og munu þeir fjármunir verða settir í eflingu byggðamála og sóknaráætlanir landshluta.