146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:57]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er óhætt að segja að hæstv. samgönguráðherra hafi tekið við embætti í töluverðum mótvindi þegar samgönguáætlun var illa fjármögnuð sem Alþingi hafði samþykkt. En hann tókst á við verkefnið af krafti og setti af stað rannsóknir við veg á Grindavíkurvegi og framkvæmdir í gang á Reykjanesbraut, mislæg gatnamót við Krísuvík og núna á næstu dögum verða tvö hringtorg við Reykjanesbæ sett í útboð.

Ráðherrann hefur einnig talað um nýjar hugmyndir í tekjuöflun vegna hugsanlegra framkvæmda í kringum höfuðborgarsvæðið sem gætu numið allt að 100 milljörðum króna og kallað eftir samstarfi við almenning og sveitarfélög. Ég verð að segja eins og er að ég hef fundið fyrir auknum skilningi almennings á að ræða þessi mál og skoða þá stöðu sem er uppi. Mig langar að spyrja ráðherrann, sem ég veit að hefur sett vinnu í gang vegna þessara mála, hver staðan sé í þeirri vinnu, hvaða hugmyndir séu komnar fram og hvenær þær verði settar fram og hvar það verkefni sé statt og að útskýra það fyrir okkur hér í þingsal.