146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:03]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, það eru mörg önnur verkefni, t.d. hafnir og flugvellir. Það hefur verið vanfjármagnað hjá okkur einnig. Það er mikil þörf víða á framkvæmdum við hafnir landsins. Við munum þurfa að auka fjármagn til þeirra og ekki síður lítilla flugvalla á landsbyggðinni þar sem í raun hefur bara verið til fjármagn til rekstrar á þessu ári en ekki til þess krefjandi viðhalds sem þörfin hefur vaxið fyrir á undanförnum árum.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir varðandi landstærð og fjölda íbúa. Við gleymum því oft að við erum mjög fámenn þjóð í stóru landi. Danir eru tæplega 6 milljónir og byggja vegakerfi í landi sem er kannski innan við þriðjungur af stærð Íslands, eins og Suðurkjördæmi. Við erum 340 þúsund manns að byggja vegakerfi og alla innviði í 103 þúsund ferkílómetra landi.

Við höfum áður tekist á við slík verkefni með mjög góðum árangri. Mér finnst nærtækast að nefna dreifikerfi raforku, meginflutningskerfi raforku. Það er staðreynd að sú stefna sem var tekin fyrir 50–60 árum síðan, að skjóta frekari stoðum undir íslenskt samfélag með orkufrekum iðnaði, byggja upp virkjanir í landinu og meginflutningskerfi raforku gerði að verkum að heimilin og fyrirtækin borga lægsta raforkuverð af öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það voru stórir viðskiptavinir sem keyptu af okkur mikið magn og stóðu undir þessu með okkur. Okkur hefur vantað svona stóran viðskiptavin í vegakerfið. En hann er kominn núna. Nú höfum við alla ferðamennina. Við þurfum að ná til þessa mikla ferðamannastraums til að taka þátt í því með okkur að byggja upp (Forseti hringir.) vegakerfið í þessu landi. Öðruvísi munum við aldrei ná að stíga þau alvöruskref sem nauðsynleg eru til þess að ástandið verði ásættanlegt.