146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:22]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Aðeins betur um alþjónustuna í póstinum eftir að afnám einkaréttar hefur farið í gegn. Ég sé fyrir mér, án þess að tekin hafi verið um það ákvörðun en þetta er í skoðun samhliða því frumvarpi sem unnið er að, að þetta sé þjónusta sem yrði boðin út. Ég held að til séu margar hagkvæmar lausnir. Vissulega bankar á dyrnar aftur sú staðreynd hversu fámenn við erum í stóru landi. Þetta verður alltaf hlutfallslega dýrara hjá okkur. En mér þykir mjög spennandi að skoða hvort það séu ekki markaðslegar forsendur fyrir þessari þjónustu þegar upp verður staðið, t.d. er þetta verður boðið út eftir landshlutum vegna breytts umhverfis og mögulegrar samnýtingar á ýmsum þáttum ef þetta fer eftir landshlutum.

Það er síðan alveg sérstök ákvörðun hvort fyrirtækið Pósturinn verður síðan selt, hvort ríkið fer algerlega út úr þessum rekstri. En ég get sagt það sem mína skoðun að það hljóti að koma til skoðunar.

Já, bygging hjólastíga, göngustíga og slíks. Það er Vegagerðin og ríkið hefur tekið þátt í þessari uppbyggingu með sveitarfélögunum. Ef ég man rétt eru á þessu ári settar um 250 milljónir í þennan málaflokk þar sem er samstarf sveitarfélaga og Vegagerðarinnar í þessari uppbyggingu. Það hefur verið gert mikið átak og gengið að mörgu leyti ágætlega en notkunin er líka vaxandi. Við þurfum vissulega að horfa til þessa þáttar. Það er kominn aukinn þrýstingur á að við skoðum þetta víðar á landinu með stærri sveitarfélögum úti um land.