146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:31]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta sé einn af þeim þáttum sem við þurfum að horfa til. Hjólreiðar eru vaxandi ferðamáti en ég ætla samt ekki alveg að missa mig yfir þeim. Ég bý í sveitarfélagi þar sem hv. þingmaður er bæjarfulltrúi og er búinn að búa þar lengi, frá 1969. Ég bjó þarna niðri í dal í 23 ár og flutti síðan upp á lóðir sem hún skipulagði fyrir okkur íbúana uppi á hæstu hæðum. Ég gat hjólað dálítið þegar ég fór úr dalnum, en það er orðið öllu lengra þarna upp frá. Það sem ég er að segja er að þetta þarf allt að haldast í hendur; almenningssamgöngur, vistvænar samgöngur og greiðari umferð.

Talandi um vistvæna umferð þá skiptir gríðarlegu máli í því tilliti að umferðin renni vel. Það er óhemjukostnaðarsamt og mengandi hvernig stíflurnar eru í umferðinni í dag. Ég geri ráð fyrir því að við munum eiga frumkvæði að því í ráðuneytinu að ræða við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fljótlega um það hvort það sé möguleiki að við getum innleitt einhvers konar álagsdreifingu, að við getum hafið viðræður við stóra vinnustaði og skóla og slíkt um að dreifa álaginu. Þetta er þekkt í borgum erlendis. Ég held að þetta gæti verið stór hluti af því að gera samgöngur vistvænni og væri kannski áhugavert að skoða í samhengi við almenningssamgöngur og vistvænar samgöngur hvernig við getum náð líka að greiða leið þessarar bifreiðaumferðar sem er orðin, eins og við þekkjum, alveg óþolandi á köflum.