146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:35]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að reyna að hafa bjartsýnina að leiðarljósi í störfum mínum í ráðuneytinu og nálgast verkefnin á þeim forsendum. Þegar horft er til þeirra væri í sjálfu sér alveg hægt að láta fallast hendur en það er ekki í boði.

Hvort meira fé kemur til samgöngumála er auðvitað ákvörðun þingsins og við þekkjum öll mikilvægi þessara mörgu málaflokka. Við sjáum hér þann ramma sem lagt er upp með á næstu árum. Hann felur í sér heilmikla aukningu miðað við það sem áður var, en ekki nægilega mikið að mínu mati til að hægt sé að fara í allar þær mikilvægu framkvæmdir sem fyrir framan okkur eru.

Ég nefndi tölur um þær leiðir sem eru til skoðunar hjá okkur sérstaklega, inn og út af höfuðborgarsvæðinu, en það eru verkefni, eins og hv. þingmaður nefndi, sem á þá eftir að tala um, þau eru mjög brýn en mjög kostnaðarsöm. Skógarstrandarvegur kostar til að mynda um 6 milljarða kr. í fullnaðarfrágangi. Hið sama á um Teigsskóg, þar eru aðrir 6 milljarðar. Við töluðum um Dynjandisheiði áðan og Dýrafjarðargöng. Ætli það séu ekki á bilinu 15, 18 milljarðar í heildina, 15 milljarðar plús alla vega. Svo getum við haldið áfram norður um. Minnst var á Vatnsnesveg, þá var ágætur íbúi þar um daginn sem sendi mér einn morguninn myndskeið af því þegar hann var að keyra þann veg og ég þekki hann ágætlega. Þarna var ég í sveit sem strákur, en þetta er auðvitað óboðlegt. Það er bara allt of víða í okkar samgöngukerfi og þess vegna mikil átaksstörf.

Mun þingið þá koma að þessari forgangsröðun? Já, að sjálfsögðu. Það er þingið sem afgreiðir samgönguáætlun. Unnið er núna að nýjum samgönguáætlunum til fjögurra og 12 ára. Þær ættu þá í síðasta lagi að vera lagðar fram síðar á þessu ári eða ekki seinna en í byrjun næsta árs.