146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Svo ég svari strax síðustu spurningu hv. þm. Gunnars Inga Guðmundssonar: Nei, ég tel ekki skipakost Hafró vera nægilega góðan eins og sakir standa. Ég leyni því ekki að ég vil sjá nýtt skip fyrir Bjarna Sæmundsson, sem orðinn er hátt í 50 ára gamall. Mér finnst ég vera nógu gömul, hvað þá blessað skipið sem við þurfum að reiða okkur á varðandi rannsóknir, úthaldsdaga og fleira. Það er alveg skýrt. Ég vil líka draga það fram að þverpólitísk nefnd, undir forystu Björns Vals Gíslasonar, sem í sátu einnig fleiri þingmenn, skilaði hér niðurstöðum á haustdögum 2013. Farið var yfir þörfina á nýju skipi. Rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson var endurbyggt að hluta árið 2002, minnir mig. Það átti að duga í átta til tíu ár. Þau eru nú liðin. Það liggur ljóst fyrir að mínu mati að Hafrannsóknastofnun þarf á nýju skipi að halda.

Það er ekki inni í áætluninni, munu menn segja og koma hérna gargandi upp. Nei, ég bind auðvitað vonir við það að þetta geti tekið breytingum. Ég verð að segja alveg eins og er, af því það er hárrétt sem kom fram hjá hv. þingmanni, að aðbúnaður okkar til rannsókna er ekki góður í þessari mikilvægu atvinnugrein sem við erum framúrskarandi í. Litið er til okkar og við ætlum ekki að glata þeirri stöðu okkar meðal annarra þjóða. Það ætlum við ekki að gera. Það gerist ekki með þessari fjármálaáætlun. En við þurfum að halda áfram að byggja ofan á hana.

Það svigrúm sem ég fæ í mínu ráðuneyti fer í það meira og minna að styrkja Hafrannsóknastofnun. Það er ekki mikið, það fer helst í að hlúa að innviðum Hafró, síðan að reyna að halda áfram að byggja undir MAST, sem ég hef sagt að við þurfum að taka sérstaklega vel utan um í ljósi skýrslunnar sem kynnt var um daginn.