146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Eins og ég gat um áðan þá lágu tillögur mínar varðandi fjármálaáætlunina fyrir áður en skýrslan um MAST kom fram. Þar eru mjög ákveðnar ábendingar til stjórnvalda. Við þurfum í ráðuneytinu að vanda okkur, m.a. að reyna að styðja við stofnunina á sviði mannauðsmála og fleiri þátta. Auðvitað þarf stofnunin sjálf síðan að skipta sínum verkum þannig að hún geti raunverulega staðið við það eftirlit sem henni er ætlað að sinna. Ég treysti henni fullkomlega til þess. En tillögur vegna fjármálaáætlunar voru komnar fram eins og ég segi áður en skýrslan kom fram.

Í MAST-skýrslunni eru tillögur um að móta matvælastefnu, það mun kosta að móta matvælastefnu og reyna að fylgja henni síðan eftir. Síðan er náttúrlega hitt atriðið sem ég tel mjög brýnt að við förum í, það er að einfalda heilbrigðiseftirlitið, reyna að koma því á sömu hendi þar sem annars vegar er eftirlitið á höndum sveitarfélaga og hins vegar hjá MAST. Það er aftur og aftur og ítrekað, hvort sem það eru bændur eða framleiðendur eða neytendur, talað um það að við þurfum að einfalda þetta kerfi. Það mun eflaust kosta líka eitthvað. En stofnunina þarf að styðja við. Að hluta til mun ég nota það svigrúm sem ég hef fengið til þess að hjálpa Matvælastofnun.

Varðandi umframframleiðsluna, 40 sekúndur eru bara allt, allt of lítill tími til þess að ræða það, kem að því betur í seinna svari. Þetta er verulegt áhyggjuefni. Bændur hafa komið og bændaforystan hefur komið og rætt þessi mál ítrekað við mig. Það verður alveg að segjast eins og er að það blasir ekki við hvernig á að leysa þetta. Það dugar mér ekki að segja: Setjum bara 200 milljónir í þetta og sjáum svo til. Ég verð að fá einhverja tryggingu fyrir því að við upplifum það ekki aftur og aftur að standa frammi fyrir því að leysa vandann á offramleiðslu á dilkakjöti. Ég vil sjá langtímalausn. Ég er tilbúin til þess að beita mér í þá veru.