146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:13]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Hæstv. forseti. Aðeins út af MAST. Það er ekki endilega sjálfgefið að bara með því að setja aukna fjármuni í Matvælastofnun þá leysist allt. (Gripið fram í.) Það er ekki þannig. Það kemur mjög skýrt fram í skýrslunni, sem er að mínu mati mjög vönduð, að það þarf að laga vinnubrögð, ekki bara innan stofnunarinnar heldur líka hjá ráðuneytinu. Það þarf að athuga lagaumgjörðina. Ég ætlaði að leggja fram heildarlöggjöf um MAST núna á þessu þingi en ég bíð með það í ljósi þeirra ábendinga sem koma fram í skýrslunni. Ég tel mikilvægt að við setjum fram raunhæfar tillögur, leggjum fram frumvarp sem er heildarlöggjöf um Matvælastofnun sem ýtir stofnuninni fram á við. Hluti af því kann að vera fjármagn, en það er ekki sjálfgefið að það eitt og sér leysi þann vanda og þau viðfangsefni sem Matvælastofnun stendur frammi fyrir. Ég er búin að tala um að það þurfi að samrýma eftirlitið, það liggur alveg ljóst fyrir. Ábyrgð sveitarfélaga er líka mikil, að þau loki ekki alltaf hurðinni á okkur þegar við biðjum, ríkisvaldið, um þetta samtal að reyna að samræma eftirlitið. Það er ekki boðlegt í nútímasamfélagi að hafa það eins og það er í dag, í rauninni algjörlega skipt og það er jafnvel mjög mismunandi hvernig eftirlitinu er háttað á milli sveitarfélaga.

Aðeins varðandi sauðfjárbúreksturinn og umframframleiðsluna. Búvörusamningur tók gildi strax í byrjun ársins. Það verður að segjast eins og er að það kemur mér pínulítið á óvart að við erum komin rúma þrjá mánuði frá áramótum og strax er komið upp þetta risavandamál, þetta gamalkunna vandamál. Ég hefði haldið að menn ættu að taka á þessu í búvörusamningnum sem slíkum. Það var ekki gert, en það spila náttúrlega ákveðnir þættir inn í þetta. Markaðurinn er enn þá lokaður í Kína. Við erum búin að tala mikið við Kínverja, kínverska sendiherrann, og þá ráðamenn sem við höfum náð í til þess að opna á strenginn til Kína. Noregur hefur ekki tekið 600 tonnin og það skiptir miklu máli. Það er í samningi á milli okkar og Norðmanna að þeir taki 600 tonn. Sá samningur hefur ekki verið efndur, þannig að það er margt sem tínist (Forseti hringir.) til. En við þurfum að einbeita okkur að því hvernig við getum leyst þennan offramleiðsluvanda til lengri tíma en koma ekki (Forseti hringir.) alltaf með þessar smáskammtalækningar. Ég ítreka það ef við finnum langtímalausn þá er ég tilbúin til að beita mér fyrir henni.