146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Maður vill kannski bara byrja hér eftir ræðu fyrri ræðumanns að óska ráðherranum góðs gengis við að finna þessa blessuðu sátt þegar kemur að sjávarútvegsmálum. Ég hef lengi talið að það væri nánast ómögulegt að finna sáttina. Það eina sem við höfum verið sammála um er að við viljum að greinin borgi gjald fyrir notkunina, en svo rífumst við hins vegar um allt annað og þar með talið upphæðina sem hún á að borga.

Ég ætlaði nú frekar að snúa mér að öðru sem ég er nokkuð bjartsýn á, alla vega ég, að ég og ráðherrann getum hugsanlega náð saman um, og það snýr að verkefni sem mér skilst að heiti núna Matarauður Íslands. Ráðherrann kynnti það, held ég, hvort sem það var á fundi í dag eða í gær þar sem var verið einmitt að kynna þetta nýja nafn sem áður var þekkt undir Matvælalandið Ísland, verkefni sem fór af stað eða var fjármagnað frá 2015 um hvernig við getum stuðlað að því að koma á framfæri matarmenningu okkar og upplifun tengdri mat. Og þá eru menn að horfa til m.a. Svíþjóðar þar sem þeir hafa kallað sitt verkefni Try Swedish, sem hefur gengið út á það að fjölga störfum í veitingageiranum og auka verslun með sænska matvöru. Við myndum þá horfa náttúrlega til okkar íslensku matvöru og þá er verið að huga að útflutningi. Ég veit líka að Svíar hafa oft horft til innkaupa hjá hinu opinbera innan lands og á vegum ríkisins varðandi kaup á innlendri matvælaframleiðslu. Við erum svo heppin að segja má að útflutningur okkar eða þeir sem neyta vöru okkar séu komnir til landsins.

Í ár fáum við 2,4 milljónir ferðamanna, sem er verið að spá. Sem dæmi um mjög þekkta einstaklinga sem hafa komið hingað og svo sannarlega vakið athygli á íslenskum matvælum má nefna Kardashian systurnar sem fóru og heimsóttu Friðheima á sínum tíma og borðuðu þar tómatsúpu og pasta með tómötum og tómatís og tómatsnafs og ég veit ekki hvað. (Forseti hringir.) Ég hefði því mikinn áhuga á að heyra frá ráðherranum, en eins og kom fram er hún með takmarkaða peninga (Forseti hringir.) en mikinn vilja og mikinn kraft, hvernig hún sjái fyrir sér að geta (Forseti hringir.) tryggt það að sem flestir ferðamenn sem koma til landsins (Forseti hringir.) borði sem mest af íslenskum matvælum.